Innlent

Neitað um skaðabætur eftir að hafa ekið á hest

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað hestamann og Vátryggingafélag Íslands af ríflega 670 þúsund króna skaðabótakröfu manns vegna tjóns sem varð á bíl hans þegar hann ók á hest hestamannsins.

Atvikið varð á Suðurlandsvegi í septemer í fyrra en þá var hestamaðurinn á leið yfir veginn á hesti með tvo til reiðar þegar bíllinn kom aðvífandi og var honum ekið á afturfót hestsins sem hestamaðurinn sat. Við það féll hesturinn og hestamaðurinn í kjölfarið af baki. Í kjölfarið þurfti að aflífa hestinn.

Við óhappið urðu skemmdir á bíl mannsins og fór hann þess á leit við VÍS, þar sem hestamaðurinn var með ábyrgðartryggingu, að hann fengi greitt tjónið frá tryggingarfélaginu. Eftir að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komst að því að hestamaðurinn bæri alla ábyrgð á málinu neitaði VÍS að greiða tjónið og fór það því fyrir dómstól.

Ágreiningur var á milli hestamannsins og ökumannsins um aðdraganda slyssins og komst héraðsdómur að því að ökumaður bílsins hefði ekki sýnt fram á það svo óyggjandi væri að hestamaðurinn hefði sýnt af sér stórkostlegt aðgæsluleysi og bæri þannig sök á tjóninu á bílnum.

Þvert á móti þætti ljóst að maðurinn hefði ekið bíl sínum of hratt, ekki með fulla athygli við aksturinn og ekki hagað akstrinum í samræmi við aðstæður. Því bæri hann sjálfur ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir og voru því bæði VÍS og hestamaðurinn sýknuð af kröfu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×