Fótbolti

Illa slasaður eftir hátt fall

Gianluca Pessotto
Gianluca Pessotto AFP

Gianluca Pessotto, leikmaður Juventus til 11 ára og núverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Tórínó eftir að hafa dottið út um glugga og fallið 15 metra til jarðar.

Lögregla rannsakar nú tildrög atburðarins, sem í fyrstu var talinn slys, en nú þykir koma til greina að um sjálfsvígstigraun hafi verið að ræða. Fyrrum félagar Pessotto og liðsmenn Juventus, Gianluca Zambrotta og Alessandro del Piero, flugu frá Þýskalandi til Ítalíu til að vitja félaga síns á sjúkrahúsinu.

Eiginkona Pessotto segir að hann hafi þjáðst af þunglyndi á síðustu misserum og hafi illa náð að fóta sig við skrifborðið eftir að hann lagði skóna á hilluna. Juventus er eitt þeirra liða sem réttað verður yfir vegna knattspyrnuhneykslisins á Ítalíu innan skamms, en tekið hefur verið fram að Pessotto sé ekki einn þeirra sem liggja undir grun í málinu.

Fréttir frá Ítalíu herma að hann hafi verið með talnaband í krepptum hnefanum þar sem hann fannst slasaður á jörðinni fyrir utan glugga í höfuðstöðvum Juventus. Hann er ekki í lífshættu, en er nokkuð illa slasaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×