Viðskipti innlent

Greiðir út nítján milljarða í arð

Æðstu stjórnendur KB banka Stjórn bankans leggur til að hluthafar fái 19,2 milljarða króna í aukaarð í Existu.
Æðstu stjórnendur KB banka Stjórn bankans leggur til að hluthafar fái 19,2 milljarða króna í aukaarð í Existu.

KB banki hefur boðað til hluthafafundar þann 16. október þar sem stjórn bankans leggur til að bankinn greiði hluthöfum sínum aukaarð í formi hlutabréfa í Existu.

Fyrir hvern hlut í KB banka munu hluthafar fá 1,25 hluti í Existu og nemur arðgreiðslan um 7,7 prósentum hlutafjár í Existu.

Miðað við markaðsvirði Existu jafngildir arðgreiðslan 19,2 milljörðum króna. Stefnt er að því að arðgreiðslan verði þann 26. októ­ber.

Stjórnendur bankans greindu frá því á vordögum að þeir myndu leysa upp eignarhald í Existu og var liður í því að greiða út helming af upphaflegum eignarhlut sem aukaarð til hluthafa. Bankinn seldi jafnframt bréf sín í Existu til lífeyrissjóða í sumar og til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á dögunum.

Stærsti hluthafi KB banka er Exista með yfir 25 prósenta eignarhlut. Gangi áform stjórnenda bankans eftir fær Exista eigin hlutabréf fyrir um fimm milljarða króna.

Áhrif skráningar Existu í Kauphöllina höfðu mikil áhrif á afkomu KB banka á þriðja ársfjórðungi. Reiknuðu þeir með að hagnaður næmi 23 milljörðum króna miðað við útboðsgengi Existu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×