Viðskipti innlent

Atorka í mál við Kauphöll Íslands

Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu sem Atorka Group sendi frá sér segir að ákvörðun stjórnenda Kauphallarinnar í gær lýsi alvarlegum skorti á heildarsýn á það sem eigi sér stað á markaði hér á landi.
Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu sem Atorka Group sendi frá sér segir að ákvörðun stjórnenda Kauphallarinnar í gær lýsi alvarlegum skorti á heildarsýn á það sem eigi sér stað á markaði hér á landi. MYND/Hörður

Kauphöll Íslands sektaði í gær Atorku Group um 2,5 milljónir króna fyrir villandi upplýsingagjöf í tilkynningu. Atorka mótmælir ákvörðuninni harðlega og kveðst standa vel að upplýsingagjöf og vera það félag Kauphallarinnar sem birti ítarlegust uppgjör um starfsemi sína.

Kauphöll Íslands hefur áminnt Atorku Group opinberlega og sektað félagið um 2,5 milljónir króna fyrir brot á reglum Kauphallarinnar.

Kauphöllin sendi frá sér tilkynningu þessa efnis eftir lokun markaða í gær. Atorka mótmælir ákvörðuninni harðlega og hefur falið lögmönnum sínum að höfða dómsmál til ógildingar henni.

Þá lýsir Atorka Kauphöllina ábyrga fyrir öllu tjóni sem af málinu kann að hljótast. „Jafnframt verður Fjármálaeftirlitinu sent erindi vegna málsins á grundvelli eftirlitshlutverks þess samkvæmt XI. kafla laga um starfsemi kauphalla,“ segir í tilkynningu félagsins.

Kauphöllin segir Atorku Group hafa gerst brotlega við reglur fyrir útgefendur verðbréfa þegar félagið sendi 30. ágúst Kauphöll Íslands fréttatilkynningu vegna birtingar á sex mánaða uppgjöri þess. „Fyrirsögn tilkynningarinnar var: „Hagnaður Atorku Group eftir skatta á fyrri helmingi ársins var tæplega 4,9 milljarðar króna.“ Við lestur uppgjörsins kom í ljós að hagnaður samstæðunnar var 187 milljónir króna. Þær lykiltölur sem fram komu í fréttatilkynningunni voru aðeins lykiltölur móðurfélagsins.

Engar lykiltölur voru um samstæðuna,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar og tekið fram að óskað hafi verið leiðréttingar. Eftir fund 13. september sendi Atorka frá sér nýjar tilkynningar 14., 19. og 21. sama mánaðar, en Kauphöllin taldi þær ófullnægjandi „þar sem umfjöllun um móðurfélagið var enn þungamiðjan í tilkynningunum“. Þannig segir Kauphöllin að fréttatilkynning Atorku vegna uppgjörsins hefði átt að endurspegla uppgjör samstæðunnar og félaginu væri óheimilt að haga tilkynningunni með þeim hætti að veita nær eingöngu upplýsingar um niðurstöðu reikningsskila móðurfélagsins.

Atorka segir að málið allt byggist á alvarlegum misskilningi á lögum og reglum sem gilda um Kauphöll Íslands og uppgjör fyrirtækja og kveðst hafa stundað bæði ítarlega og vandaða upplýsingagjöf umfram skyldur sínar. „Í fréttatilkynningu Kauphallar Íslands er því ranglega haldið fram að ekki hafi verið brugðist við tilmælum Kauphallarinnar. Þetta er rangt því Atorka óskaði eftir fundi með forsvarsmönnum Kauphallarinnar og gerði í kjölfarið margar tilraunir til að leysa málið, m.a. með fjórum tillögum um breytta uppsetningu fréttatilkynningarinnar. Þessum tillögum sinntu starfsmenn Kauphallarinnar lítt,“ segir Atorka sem kveður eðlilegt að leggja áherslu á uppgjör móðurfélagsins sem enda lýsi afkomunni best, um leið og fram hafi komið upplýsingar um rekstur samstæðunnar.

Atorka fór fram á að fá birt mótsvör sín í upplýsingakerfi Kauphallarinnar en var neitað um þá birtingu. Segir talsmaður Atorku að fyrirtækið furði sig mjög á viðhorfi og viðbrögðum Kauphallarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×