Innlent

Vilja landið til baka

Með ruslahaugana í baksýn Leifur Ölver Guðjónsson, íbúi í Austur-Stafnesi í Sandgerði, segir að rusl hafi fokið úr haugnum og fuglinn hafi borið bein út um allt hraun.
Með ruslahaugana í baksýn Leifur Ölver Guðjónsson, íbúi í Austur-Stafnesi í Sandgerði, segir að rusl hafi fokið úr haugnum og fuglinn hafi borið bein út um allt hraun. MYND/Víkurfréttir

Herinn var með radarskerma rúman kílómetra frá bænum Austur-Stafnesi í marga áratugi og ruslahaug í svipaðri fjarlægð. Landeigendur fengu aldrei notið þess umgengnisréttar um landið sem þeir áttu. Mótmæli höfðu ekkert að segja.

Leifur Ölver Guðjónsson, landeigandi í Austur-Stafnesi, segir að sambýlið við herinn hafi gengið „upp og ofan. Það var stundum yfirgangur. Menn voru handteknir með byssukjafta yfir sér og það var aldrei hægt að nýta rekann vegna þess að þeir voru með landið og létu menn ekki í friði.“

Ruslið fauk úr ruslahaug hersins í Stafnesi í áratugi og var íbúum til ama. Leifur segir að fuglinn hafi borið ruslið „út um allt hraun þannig að þetta var ekkert voðalega skemmtilegt.“ Þá var menguðum jarðvegi af Nikkelsvæðinu sturtað í Stafnesi.

Landeigendur vilja fá landið til baka en þeir hafa nú aðeins um fimm prósent upprunalegu jarðarinnar til umráða. Leifur Ölver segir landið gott undir sumarbústaði og heilsárshús.

„Þetta er stutt frá þéttbýlinu og fólk kemur mikið hingað til að rölta í fjörunni. Ég held að fólki myndi líða ágætlega hér og komast aðeins út úr skarkalanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×