Viðskipti innlent

Viðræðum um sölu á Icelandair slitið

Slitnað hefur upp úr viðræðum FL Group og Kaupþings um kaup bankans á Icelandair, dótturfélagi FL Group, fyrir hönd fjárfestingarfélagsins Kers hf. Ker er í eigu Ólafs Ólafssonar, eiganda Samskipa.

Í tilkynningu frá Keri segir að fjárfestingarfélagið hafi ákveðið að draga sig út úr viðræðum um kaup á Icelandair Group. Telji Ker að Icelandair Group sé áhugavert fyrirtæki með gott starfsfólk og góðan stjórnendahóp sem gegni mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og hafi jafnframt ýmis framtíðartækifæri. Af þessum ástæðum taldi Ker áhugavert að skoða þetta fjárfestingatækifæri af fullri alvöru.

Verðlagning fyrirtækisins og aðferðafræðin við söluna var hinsvegar utan þess ramma sem Ker taldi ásættanlegt og því hafi félagið ákveðið að draga sig út úr viðræðunum, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×