Viðskipti innlent

KB banki gerir ráð fyrir 23,8 milljarða hagnaði

KB banki.
KB banki.

KB banki gerir ráð fyrir því að hagnaður bankans á þriðja ársfjórðungi vegna hlutafjárútboðs Exista nemi 23,8 milljörðum króna sé miðað við útboðsgengi. Bankinn seldi 1.100 milljónir hluta í Exista í tengslum við skráningu fyrirtækisins í Kauphöll Íslands og færir 10,8 prósenta eignarhlut sinn í Exista á gangvirði.

Í tilkynningu frá KB banka segir að hann hafi selt 130 milljónir hluta eða sem nemur 1,2 prósentum af heildarhlutafé í Exista í vel heppnuðu almennu útboði og útboði til starfsmanna Exista á genginu 21,5 krónur á hlut í gær. Hafi bankinn selt samtals um 1.100 milljónir hluta í Exista eða 10,1 prósent af heildarhlutafé félagsins í ágúst. Bankinn átti í lok annars ársfjórðungs 20,9 prósent heildarhlutafjár í félaginu. Þann 1. ágúst seldi bankinn 6,1 prósentu eignarhlut til níu íslenskra lífeyrissjóða og þann 8. september seldi bankinn 2,8 prósent til fagfjárfesta. Innleystur hagnaður af sölu hlutanna á ársfjórðungnum nemur samtals 10,6 milljörðum króna.

Eignarhlutur Kaupþings banka í Exista eftir sölu hlutanna í gær nemur nú 10,8 prósentum af heildarhlutafé en við skráningu Exista í Kauphöll Íslands verður allur eignarhlutur bankans í félaginu bókfærður á gangvirði. Miðað við gengið sem hlutirnir í Exista voru seldir á í almenna útboðinu er óinnleystur gengishagnaður 10,8 prósenta eignarhluta bankans í Exista 13,2 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×