Innlent

Netaveiðum við Írland hætt

Hér er Orri Vigfússon á bílpalli fyrir utan landsfund stærsta stjórnmálaflokks Írlands, Fianna Fail.
Hér er Orri Vigfússon á bílpalli fyrir utan landsfund stærsta stjórnmálaflokks Írlands, Fianna Fail. MYND/OV

Ríkisstjórn Írlands hefur ákveðið að taka fyrir allar reknetaveiðar á laxi við strendur landsins. Lagt er til algjört bann við reknetaveiðum á laxi frá næstu áramótum og að 30 milljónum evra verði varið til að bæta 877 sjómönnum upp þann tekjumissi sem þeir hljóta af banninu. Þetta er mikill sigur fyrir Orra Vigfússon, formann Norður-Atlantshafslaxasjóðsins (NASF), sem hefur lengi barist fyrir upptöku netanna.

„Ég hef verið þarna með annan fótinn í fjórtán ár og hef hitt alla sjávarútvegsráðherrana frá 1991. Það má segja að verkefni sjóðsins sé nú að mestu lokið því nú hefur verið tekið fyrir nær alla netaveiði í sjó. Hlutur Íra var mjög stór svo þetta er stórsigur.“ Orri segir að NASF þurfi að beita sér fyrir því að hafa gott eftirlit með framkvæmd bannsins á næstu árum.

Bann við reknetaveiðum Íra kemur mörgum laxastofnum til góða. „Þetta er lax sem gengur frá Frakklandi, Spáni og Þýskalandi. Hér er verið að opna fyrir þann möguleika að endurreisa marga laxastofna í Evrópu sem ekki hefur verið hægt að gera til þessa vegna þessara veiða,“ segir Orri.

Næstu verkefni NASF er að fylgjast með að banninu við Írland verði framfylgt og uppræta laxveiðar í sjó við Noreg, sem eru þær síðustu í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×