Innlent

Ekki tekið mið af 91 milljarðs verðmætamati

Dagur B. Eggertsson. Borgarfulltrúinn segir að hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun hafi verið seldur fyrir smánarverð.
Dagur B. Eggertsson. Borgarfulltrúinn segir að hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun hafi verið seldur fyrir smánarverð.

Á borgarráðsfundi í gær lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram bókun um að borgarstjóri Reykjavíkur hafi selt hlut borgarinnar í Landsvirkjun fyrir óviðunandi verð. En hluturinn var seldur miðað við að heildarverðmæti fyrirtækisins væri 61 milljarður.

Samkvæmt verðmætamati sem ParX, viðskiptaráðgjöf IBM, vann var heildarverðmæti fyrirtækisins hins vegar um 91 milljarður.

Verðið sem Reykjavíkurborg seldi hlutinn á miðast því við að verðmætamat fyrirtækisins sé 30 milljörðum lægra en samkvæmt verðmætamatinu. Kaupverðið er nánast það sama og rætt var um í samningaviðræðum borgarinnnar og ríkisins þegar slitnaði upp úr þeim síðastliðinn janúar.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, oddviti Samfylkingarinnar í borgarráði, segir að í janúar hafi allir kjörnir borgarfulltrúar verið sammála um að þeir rúmlega 25 milljarðar sem ríkið vildi greiða fyrir hlutinn, sem byggt var á því mati að heildarverðmæti fyrirtækisins væri 61 milljarður, væri of lágt verð. Nú hefur Reykjavíkurborg selt hlutinn fyrir það verð án þess að tekið hafi verið mið af 91 milljarðs verðmætamatinu.

,,Okkur óraði ekki fyrir því að borgarstjóri myndi ekki taka mið af nýju verðmætamati og selja hlutinn á verði sem er fjarri því að vera ásættanlegt,“ segir Dagur.

Fyrirspurnir fulltrúa Samfylkingarinnar verða teknar fyrir á borgarráðsfundi í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×