Innlent

Horuð hross án skjóls og fóðurs

Þeim sem halda hross á eyðijörðum ber skylda til að skipa tilsjónarmann og hafa á staðnum nægt fóður og skjól.
Þeim sem halda hross á eyðijörðum ber skylda til að skipa tilsjónarmann og hafa á staðnum nægt fóður og skjól.

Tveimur mönnum sem eiga á annan tug hrossa á jörð í Dalabyggð hefur verið gert að bæta fóðrun hrossa sinna þar sem búfjáreftirlitsmaður og héraðsdýralæknir telja hana með öllu óviðunandi. Í bréfi til sveitarstjóra segja þeir hrossin hafa verið orðin ansi aflögð og „sérstaklega voru trippi í hópnum orðin horuð“. Sveitarstjóri hefur gefið eigendum frest fram á mánudag til úrbóta.

Eigendur hrossanna, sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu, hafa ekki farið að lögum um búfjárhald, að sögn Gunnólfs Lárussonar sveitarstjóra. Samkvæmt þeim þarf að vera með skipaðan tilsjónarmann með eyðijörðum, sem sveitarstjórn hefur samþykkt, til að halda búfé á þeim. Sveitarstjórn hefur farið þess á leit við jarðeigendurna en þeir hafa ekki orðið við þeim tilmælum.

Auk holdafars hrossanna bentu búfjáreftirlitsmaður og héraðsdýralæknir á að þau þyrftu að hafa sómasamlegt fóður og húsaskjól í vetur, en hvorugt mun fyrir hendi nú. Ella verði hrossin annaðhvort seld hæstbjóðanda eða komið í sláturhús. Jafnframt benda þeir á að girðingar umhverfis jörðina séu mjög lélegar og þess dæmi að hrossin hafi sloppið upp á Vesturlandsveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×