Innlent

Sátt um Siv í fyrsta sætinu í Kraganum

Heilbrigðisráðherra er óskoraður leiðtogi Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi. Baráttan um annað sætið er hörð.
Heilbrigðisráðherra er óskoraður leiðtogi Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi. Baráttan um annað sætið er hörð. MYND/Hari

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, er óskoraður leiðtogi framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi. Hún gefur ein kost á sér í fyrsta sæti á lista flokksins fyrir þingkosningarnar í vor en valið verður á listann á auka kjördæmisþingi á laugardag.

Það má heita táknrænt fyrir styrk og stöðu Sivjar að þingið er haldið í heimabæ hennar, Seltjarnarnesi.

Baráttan um annað sætið er á hinn bóginn hörð og eftir því sækjast Gísli Tryggvason, Samúel Örn Erlingsson, Una María Óskarsdóttir og Þórarinn E. Sveinsson.

Una og Þórarinn hafa bæði verið varaþingmenn og tekið sæti á Alþingi. Gísli hefur starfað innan Framsóknarflokksins undanfarin ár en Samúel vakti fyrst athygli í stjórnmálum þegar hann tók þátt í prófkjöri framsóknarmanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Kópavogi í vor.

Kosningin fer þannig fram að kosið er í hvert sæti fyrir sig og þarf fimmtíu prósent atkvæða til að hljóta sætið.

Um 380 eiga rétt til setu á þinginu og bárust fulltrúaskrár frambjóðendum í byrjun viku. Hafa þeir varið vikunni í að kynna þingfulltrúum stefnumál sín og kosti.

Siv Friðleifsdóttir er eini þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi en Páll Magnússon er fyrsti varamaður hennar þetta kjörtímabilið.

Siv hefur setið á þingi síðan 1995, fyrst í Reykjaneskjördæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×