Viðskipti innlent

Hagnaður Eyris rúmir 1,5 milljarðar króna

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest. Mynd/GVA
Fjárfestingafélagið Eyrir Invest hagnaðist um rúma 1,5 milljarða krónur á fyrstu mánuðum ársins. Hlutafé hefur verið aukið um 10 prósent. Í tilkynningu frá Eyri segir að fjárhagslegur styrkleiki aukist í hlutafjáraukningarinnar og innkomu nýrra fjárfesta. Nýtt hlutafé verður að fullu innborgað í lok ársins.

Í tilkynningunni kemur fram að ávöxtun eigin fjár hafi aukist um ríflega 16 prósent á tímabilinu sem jafngildi 22 prósenta arðsemi á ársgrundvelli.

Eigið fé félagsins eftir hlutafjáraukninguna og reiknaðan hagnað á fyrstu níu mánuðum ársins er 11,7 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall reiknast rúmlega 47 prósent.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Eyris Invest, að fjárhagur félagsins styrkist enn frekar með nýju hlutafé og sé ánægjulegt að fá fleiri öfluga fjárfesta til liðs við félagið. „Afkoma félagsins fyrstu 9 mánuði ársins er jafnframt í takt við arðsemismarkmið. Við höfum áhuga á því að breikka hluthafahópinn með skrefum sem þessum í framtíðinni. Eyrir Invest er nú betur í stakk búið að styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið Marels og Össurar á sama tíma og við freistum þess sem fyrr að auka arðsemi félagsins og draga úr áhættu með fjölbreyttu erlendu eignasafni í samræmi við stefnu okkar," segir Árni Oddur í tilkynningunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×