Viðskipti innlent

Meira selt en keypt

Innlendir fjárfestar seldu erlend verðbréf fyrir 6,5 milljarða krónur meira en þeir keyptu í júní. Þetta er 15 milljarða krónu viðsnúningur á þessu fjármagnsflæði frá sama tíma í fyrra, samkvæmt greiningardeild Glitnis banka.

Greiningardeildin segir að nettósalan síðastliðna fjóra mánuði hafi numið 9,7 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam nettósalan hins vegar 29 milljörðum króna.

Glitnir segist mega reikna með því að ástæður þessa viðsnúnings sem orðið hafi á kaupum á erlendum verðbréfum séu bæði lækkun gengis krónunnar og verð erlendra hlutabréfa. Reikna má með því að innlendir fjárfestar haldi að sér höndum í erlendum fjárfestingum á næstunni eða þar til krónan hefur styrkst nokkuð á ný.



Þá segir deildin ennfremur að sala innlendra aðila á erlendum verðbréfum undanfarið hafi unnið gegn lækkun gengis krónunnar. Gengi krónunnar lækkaði í júní en áhrif þess að fjárfestar leystu til sín erlend verðbréf hafi líklega verið þau að gengi krónunnar lækkaði ekki meira en raun bar vitni.

„Sú þörf fyrir erlent fjármagnsflæði sem viðskiptahallinn skapar verður ekki eins mikil ef innlendir fjárfestar halda áfram að selja eignir sínar í erlendum verðbréfum," segir greiningardeildin.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×