Innlent

Aukin samkeppni við Icelandair

Breska leiguflugfélagið Astraeus, sem flýgur frá Gatwick, ætlar á næstunni að sækja um leyfi til íslenskra stjórnvalda fyrir flugi frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þetta verður gert í samvinnu við lággjaldaflugfélagið Iceland Express sem hefur kynnt áform sín um flug til Boston og New York frá og með næsta vori, í beinni samkeppni við Icelandair.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru stjórnendur Iceland Express með til skoðunar að fara einnig í samkeppni við Icelandair í fragtflutningum og telja sig vera samkeppnishæfa á því sviði.

Astraeus og Iceland Express eru tengd sterkum eignaböndum. Á dögunum eignaðist Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, 51 prósents hlut í Astraeus á móti sjóðum og stjórnendum félagsins. Greiddu þeir 650 milljónir króna fyrir hlutinn. Fons á jafnframt Iceland Express að öllu leyti.

Ætlunin er að nýta Boeing 757-vélar Astraeus til Bandaríkjaflugsins en þetta eru vélar sem taka um það bil tvö hundruð farþega. Iceland Express á hins vegar engar vélar en býr yfir öflugu söluneti og leiðakerfi til Skandinavíu. Farþegum Iceland Express á Norðurlöndum býðst þannig að fljúga til Íslands og þaðan til Bandaríkjanna eða öfugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×