Innlent

Öllu millilandaflugi frestað

Icelandair og Iceland Express frestuðu öllu millilandaflugi sínu í morgun vegna spár um fárviðri. Gert var ráð fyrir að flug myndi hefjast upp úr níu hjá Iceland Express og um hádegi hjá Icelandair miðað við upplýsingar í gærkvöld. Ekki var búið að gera neinar ráðstafanir varðandi frestun á innanlandsflugi á Reykjavíkurflugvelli.

Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur á NFS, spáir ofsaveðri vestan til á Suðurlandi og við sunnanverðan Faxaflóa, fram að hádegi í dag en þá fer heldur að lægja.

Má búast við vindhraða á bilinu 22-33 m/s á þessu svæði og að vindhviður nái um eða yfir 50 m/s til fjalla. Úrhellisrigning mun fylgja þessu mikla hvassviðri. Að mati Sigurðar verður veðrið verst á Reykjanesi og á Suðurlandi.

Í kvöld mun svo hvessa á Vestfjörðum með norðvestan- eða norðanstormi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×