Innlent

Læknafélag ályktar æði mikið

Yfirstjórn Landspítalans virti í engu meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og framganga hennar gegn Stefáni E. Matthíassyni var ólögmæt. Yfirmenn LSH beittu Stefán jafnframt einelti.

Svo segir í ályktun Læknafélags Íslands um samskipti yfirstjórnar LSH og Stefáns, en hann var áminntur og síðar rekinn úr starfi á grundvelli þess að hann lokaði ekki einkastofu sinni, þrátt fyrir að starfa á sjúkrahúsinu.

Magnús Pétursson, forstjóri LSH, svarar því til að sjúkrahúsið hafi margsinnis reynt að koma til móts við Stefán, þótt honum hafi verið gerð grein fyrir því við ráðningu að sem yfirlæknir þyrfti hann að loka stofu sinni. Einnig var samkomulag gert við Stefán til þess að hann gæti flutt starfsemi stofu sinnar yfir á spítalann. Stefán hafi hins vegar ekki efnt sinn hluta samkomulagsins. Að tveimur árum liðnum, síðasta sumar, var Stefáni boðin önnur staða við sjúkrahúsið. Stefán hafi ekki svarað tilboðinu.

Annars vill Magnús ekki tjá sig um ályktun Læknafélagsins, nema að hún virðist fáum rökum studd. „Læknafélagið er búið að álykta æði mikið að undanförnu og þessi yfirlýsing er umhugsunarverð. Sérstaklega má þar nefna orð eins og „einelti". Það væri gott að vita hvað þeir meina með því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×