Viðskipti innlent

TM hækkar hlutafé

Tryggingamiðstöðin.
Tryggingamiðstöðin.

Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) hefur ákveðið að hækka hlutafé félagsins um 157,8 milljónir króna að nafnverði sem selt verður á genginu 38 til að styrkja eiginfjárstöðu félagsins vegna kaupa á hlutum í norska tryggingafélaginu NEMI Forsikring. Glitnir hefur umsjón með útboðinu og hefur sölutryggt sölu allra hluta.

Í tilkynningu frá TM segir að hluthafar hafi samþykkt að veita stjórn félagsins heimild til að hækka hlutafé um allt að 186,5 milljónir króna að nafnvirði á hluthafafundi í félaginu 26. september síðastliðinn.

Í tengslum við hlutafjáraukninguna verður gefin út útboðs- og skráningarlýsing fyrir 25. október og daginn eftir birtingu hefst forgangsréttarútboð til núverandi eigenda félagsins sem stendur í tvo daga. Útboðs- og skráningarlýsing verður birt á fréttavef Kauphallar Íslands hf. áður en útboð hefst, að því er segir í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að hluthafar hafi heimild til að skrá sig fyrir stærri hlut en þeir eigi forgangsrétt til þannig að ef aðrir hluthafar nýta ekki forgangsrétt sinn fá hinir fyrrnefndu aukinn rétt í samræmi við hlutafjáreign sína. Miðað verður við hluthafaskrá félagsins 4. október hverjir eigi forgangsrétt að bréfunum en þeir hluthafar sem hafa selt hlut sinn fyrir forgangsréttarútboð hafa ekki heimild til að nýta forgangsrétt sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×