Innlent

Bandarískt flugmóðurskip til Reykjavíkur

USS Wasp
USS Wasp

Fjörutíuþúsund tonna bandarískt flugmóðurskip kemur til Reykjavíkur í þessari viku, og segir í tilkynningu frá Bandaríska sendiráðinu að það sé í samræmi við samkomulag landanna um að viðhalda og styrkja samstarf í öryggismálum, í kjölfar þess að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli var lokað.

Skipið er á leiðinni frá Líbanon til Bandaríkjanna og gerir krók á leið sinni til að hafa hér viðkomu.

Skipið heitir USS Wasp og meginhlutverk þess er að flytja bardagasveit 1600 landgönguliða og vígtól þeirra hvert sem er á höfunum. Skipið getur borið 42 stórar þyrlur eða jafn margar Harrier orrustuþotur, og blöndu af þessum tveimur tegundum.

Wasp er fjölhæft skip og getur einnig nýst til björgunarstarfa í neyðartilfellum, hvort sem er vegna hernaðar eða náttúruhamfara. Skipið var að veita neyðaraðstoð í Líbanon.

Meðan Wasp hefur viðdvöl í Reykjavík verða haldnir fundir með Landhelgisgæslunni og lögreglunni til þess að undirbúa sameiginlegar æfingar, í framtíðinni.

1100 manna áhöfn skipsins mun fá landgönguleyfi og taka þátt í félagslegum tengslaverkefnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×