Körfubolti

Fyrsta beina útsendingin á NBA TV í nótt

Meistarar Miami verða í beinni á NBA TV í nótt
Meistarar Miami verða í beinni á NBA TV í nótt NordicPhotos/GettyImages

Í kvöld geta NBA áhugamenn tekið forskot á sæluna þegar NBA TV sjónvarpsstöðin á Digital Ísland verður með fyrstu beinu útsendinguna frá undirbúningstímabilinu og hér er enginn smá leikur á ferðinni - viðureign Miami Heat og Detroit Pistons.

Það er alltaf mjög forvitnilegt að fylgjast með leikjum á undirbúningstímabilinu í NBA, en þar eru liðin að slípa sig saman fyrir átökin í vetur og oftar en ekki mikil samkeppni um síðustu lausu sætin í liðunum. Þarna gefst áhorfendum tækifæri til að sjá nýliða og minni spámenn liðanna etja kappi og reyna að sanna sig fyrir þjálfurum sínum.

Leikur kvöldsins hefst klukkan hálf eitt eftir miðnætti, en svo verða beinar útsendingar flesta daga frá undirbúningstímabilinu þangað til deildarkeppnin hefst með formlegum hætti um mánaðarmótin.

Annað kvöld eigast við Chicago og Washington, á fimmtudagskvöldið eigast við Dallas og Sacramento og á föstudagskvöldið mætast svo Houston og Atlanta Hawks.

Vísir mun fylgjast náið með gangi mála í allan vetur og innan tíðar verður birtur tæmandi listi yfir beinar útsendingar á NBA TV - sem og hvaða leikir verða sýndir beint á sjónvarpsstöðinni Sýn í vetur, en Sýn mun áfram verða með stórleiki í beinni á föstudags- og sunnudagskvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×