Viðskipti innlent

Glitnir kaupir sænskt verðbréfafyrirtæki

Glitnir banki hf. hefur skrifað undir samning við Invik & Co. AB, sem er skráð í sænsku kauphöllinni, um kaup á öllum hlutum í sænska verðbréfafyrirtækinu Fischer Partners Fondkommission AB („Fischer Partners“). Kaupverð er 3,7 milljarðar íslenskra króna.

Í tilkynningu Glitnis banka til Kauphallar Íslands segir að með kaupunum nái bankinn fótfestu á norrænum verðbréfamarkaði og styrki stöðu sína bæði í Noregi og á Norðurlöndunum. Fischer Partners var með 4,4% markaðshlutdeild á norræna verðbréfamarkaðnum utan Íslands, á fyrsta ársfjórðungi 2006, sem gerir það að sjötta stærsta verðbréfafyrirtæki Norðurlanda.

Haft er eftir Bjarna Ármannssyni að Glitnir Securities í Noregi og Fischer Partners í Svíþjóð verði öflugir samherjar á norrænum verðbréfamarkaði. Kaupin styrki stöðu Glitnis í Noregi og renni stoðum undir frekari vöxt í Skandinavíu.

Helstu viðskiptavinir Fischer Partners eru fagfjárfestar og fjársterkir einstaklingar sem gera miklar kröfur um sveigjanleika, þjónustu og skjótan aðgang að markaði, að sögn Anders Fellmann, forstjóri Invik og stjórnarformanns Fischer Partners.

Þá er haft eftir Frank O. Reite, framkvæmdastjóra Glitnis í Noregi, að Glitnir áformi að efla og þróa kjarnastarfsemi Fischer Partners og sé það í takt við þann hátt sem Glitnir hefur haft við yfirtökur í Noregi.

Samanlögð markaðshlutdeild Fischer Partners og Glitnir Securities á fyrstu þremur mánuðum þessa árs var 5,7 prósent í Noregi. Fischer Partners er aðili að kauphöllunum í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Ósló auk Riga, Tallin, Vilníus, Varsjá og Eurex. Hagnaður fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 12,6 milljón sænskra króna, jafnvirði 126,6 milljónum íslenskra króna. Hagnaður eftir skatta í fyrra nam 37,9 milljónum sænskra króna, tæpum 381 milljón íslenskra króna.

Fischer Partners hefur aðsetur í Stokkhólmi og hjá fyrirtækinu starfa 75 starfsmenn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×