Innlent

Yfirlýsing frá Guðna Ágústssyni

MYND/GVA

Guðni Ágústsson, vara formaður Framsóknarflokksins, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna orða Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í tengslum við afsögn Halldórs í gær. Hún er svohljóðandi:

„Vegna orða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra fyrr í kvöld vil ég taka eftirfarandi fram.

 

Ég hafði á fundi með forsætisráðherra og hans nánustu samstarfsmönnum fallist á ákveðnar tillögur sem miðuðu að því að ný forysta tæki við flokknum strax í sumar, sem alger samstaða væri um meðal miðstjórnar, landsstjórnar og þingflokks. Þá var gert ráð fyrir að við Halldór segðum báðir af okkur sem formaður og varaformaður.

 

Í dag, annan dag hvítasunnu, var ljóst að ekkert yrði af þessum fyrirætlunum og ekki sú samstaða í flokknum sem áður var talið.

 

Þess vegna vil ég taka fram að ekkert liggur fyrir um afsögn mína sem varaformaður enda ekkert samkomulag miðað við þessa niðurstöðu.

 

Ég vil á þessum tímamótum þakka Halldóri Ásgrímssyni langt samstarf um leið og ég virði þá ákvörðun hans að standa upp nú.

 

Guðni Ágústsson"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×