Innlent

Samþykktu áætlun vegna loftslagsbreytinga á Norðurslóðum

MYND/GVA

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna samþykktu í gær áætlun vegna loftslagsbreytinga og mengunar á Norðurslóðum á fundi sínum í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Áætlunin tekur mið af því að óvíða er hlýnun meiri í heiminum en á norðurheimskautssvæðinu og að þangað berast þungmálmar og þrávirk lífræn efni langt að, svo að lífríki svæðisins og heilsu íbúa þess kann að stafa ógn af. Taka á mið af áætluninni í verkefnum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, en einnig í alþjóðlegu starfi, s.s. á vettvangi Norðurskautsráðsins.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra sagði á fundinum frá fyrirhugaðri vísindaráðstefnu á Íslandi í haust um tengsl loftslagsbreytinga og hafstrauma í norðanverðu Atlantshafi. Áætlað er að ráðstefnan verði haldin 11.-12. september.

Á fundinum var einnig samþykkt að Norðurlöndin myndu vinna sameiginlega að því að hrinda í framkvæmd alþjóðlegri framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga úr mengun af völdum hættulegra efna, sem samþykkt var á fundi í Dubai í febrúar. Einnig var samþykkt að á norrænum vettvangi verði unnið að því að undirbúa alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir gegn mengun af völdum kvikasilfurs, en hún er vaxandi vandamál m.a. á Norðurheimskautssvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×