Innlent

Nýr meirihluti að myndast

Talið er að Ragnheiður Hergeirsdóttir leiðtogi Samfylkingarinnar verði næsti bæjarstjóri Árborgar.
Talið er að Ragnheiður Hergeirsdóttir leiðtogi Samfylkingarinnar verði næsti bæjarstjóri Árborgar. MYND/E.Ól.

Allt stefnir nú í að sjálfstæðismenn, sem voru ótvíræðir sigurvegarar síðustu bæjarstjórnarkosninga í Árborg, verði í minnihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir af kjörtímabilinu.

Búist er við að nýr bæjarstjórnarmeirihluti verði myndaður í Árborg í dag eftir að meirihlutasamstarf sjálfstæðismanna og framsóknarmanna brast fyrir helgi. Fulltrúar Framsóknarflokks, Vinstri-grænna og Samfylkingar sátu að samningsgerð í gær og um tíuleitið í gærkvöldi, þegar fundi lauk, hafði að mestu náðst samkomulag um skiptingu embætta og skipan í nefndir.

Einnig var málefnasamningur langt kominn. Fulltúarnir hófu aftur fundarhöld í morgun, sem stóðu enn rétt fyrir hádegi, en að sögn heimildarmanna á fundinum er búist við að frágangi ljúki í dag.

Samfylkingin og Framsóknarflokkur mynduðu síðasta meirihluta, en töpuðu samanlagt þremur fulltrúum í næst síðustu kosningum, einum til Vinstri-grænna og tveimur til Sjálfstæðisflokks, sem fékk samtals fjóra.

Talið er að Ragnheiður Hergeirsdóttir leiðtogi Samfylkingarinnar verði næsti bæjarstjóri Árborgar og taki við af Stefáníu Katrínu Karlsdóttur, fyrrverandi rektor Tækniháskólans, sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn réðu sem bæjarstjóra eftir síðustu kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×