Enski boltinn

Henry tjáir sig um meiðslin og Wenger

Thierry Henry og Arsene Wenger hafa ekki lent saman, að sögn leikmannsins.
Thierry Henry og Arsene Wenger hafa ekki lent saman, að sögn leikmannsins. MYND/AFP

Thierry Henry staðfesti nú í hádeginu að hann yrði frá út árið vegna meiðsla á hálsi. Hann sagði jafnframt að ekkert væri til í fregnum um ósætti milli hans og Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal.

"Þessi meiðsli hafa verið að angra mig í þrjá mánuði og ég þarf að hvíla mig í mánuð eða jafnvel lengur til þess að þetta lagist. Ég finn til í taugunum í hálsinum og má rekja þessi meiðsli til álags. Eftir að hafa spilað 60 leiki á árinu hefur líkaminn sagt stopp. Ég verð að hlusta á líkamann," sagði Henry í dag.

Spurður út í meint ósætti hans og Wenger sagði Henry: "Lenti mér saman við Wenger? Nei," sagði Henry ákveðinn.

Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, segist hafa fullt traust á Arsene Wenger og að hann hafi sýnt góða dómgreind í gegnum tíðina. "Wenger er stjórinn og hann ræður hverjir spila og hverjir spila ekki. Við treystum honum fullkomnlega," sagði Hill-Wood.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×