Viðskipti innlent

Viðsnúningur á markaði

Greiningardeild KB banka segir mikla lækkun hafa átt sér stað á með mikilli gengisveikingu krónunnar og lækkunum á verði skulda- og hlutabréfa á mörkuðum að undanförnu. Í hálf fimm fréttum bankans segir að frá byrjun síðasta mánar hafi krónan veikst um tæp 19 prósent á sama tíma og Úrvalsvísitalan hafi lækkað um tæp 15 prósent. Viðsnúningur hafi hins vegar orðið á þróuninni á föstudag þegar krónan styrktist um 2,1 prósent í metviðskiptum, sem námu 63,2 milljörðum króna.

„Gengi krónunnar hélt áfram að styrkjast í dag eða um 1,36% í 15 milljarða króna viðskiptum. Einnig héldu skulda- og hlutabréf áfram að hækka í verði og hafði Úrvalsvísitalan hækkað um 2,2% í lok dags og verð skuldabréfa um 0,1-1,25%," segir greiningardeildin.

Þá segir greiningardeildin jafnframt að greint hafi mátt talsverða fylgni á milli verðþróunar á mörkuðum að undanförnu, en verð hluta- og skuldabréfa hefur jafnan hækkað þegar krónan hefur verið að styrkjast og lækkað ef krónan hefur verið að veikjast. „Þessa miklu fylgni má að öllum líkindum rekja til þess að fjárfestar hafa verið að fara út af íslenska markaðinum í stað þess að flytja sig á milli íslenskra fjárfestinga. Til að mynda er þekkt að fjárfestar flytji sig úr hlutabréfum yfir í skuldabréf þegar óvissa ríkir á mörkuðum. Undanfarna tvo viðskiptadaga virðist hins vegar sem markaðsaðilar séu aftur farnir að sjá fjárfestingartækifæri á íslenska markaðnum," segir í hálf fimm fréttum KB banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×