Innlent

Þunglyndislyf hækkaði mest

Halldór Kristmannsson Forstöðumaður innri og ytri samskipta Actavis.
Halldór Kristmannsson Forstöðumaður innri og ytri samskipta Actavis.

Verð á algengum lyfjum Actavis í Danmörku hefur hækkað. Flest þeirra lyfja sem hafa hækkað í verði kosta nú um fjörutíu til fimmtíu prósentum meira en þau kostuðu um miðjan maímánuð.

Mest hækkar þunglyndislyfið Citaham í hundrað stykkja tali. Það kostaði 2.122 eða 176,8 danskar krónur í maí en kostar nú 5.759 íslenskar eða 459,9 danskar krónur, samkvæmt verðskrá dönsku lyfjastofnunarinnar. Sambærilegt þunglyndislyf Actavis á Íslandi, sem kallast Oropram og inniheldur sömu virku efnin og sama magn, kostar sem fyrr 17.658 krónur, samkvæmt Lyfjastofnun.

Halldór Kristmannsson, forstöðumaður innri og ytri samskipta Actavis, segir lyfjaverð sveiflast mjög og þróast hratt í Danmörku: „Eina vikuna kostar pakkning fimmtíu krónur en þrjú hundruð þá næstu. Verðið veltur á samkeppninni á hverjum tíma. Stundum eru birgðir seldar undir kostnaðarverði til að standast samkeppnina. Hún er gríðarlega hörð.“

Verð á Simvastatin, Citaham, Lansoprazol og Enalapril í misstórum lyfjaglösum var skoðað. Verð á rúmlega helmingi lyfjapakkninganna hafði hækkað. Í einu tilviki af þeim 24 pakkningum sem skoðaðar voru hafði verð lækkað. Meltingarfæralyfið Lansoprazol lækkaði um tæpa eina danska krónu, um tíu íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×