Innlent

Viðskiptavinir stela mest úr verslunum: Milljarða rýrnun á ári

EFTIRSÓTTAST
Meðal þeirra vara sem mest er stolið af eru snyrtivörur og tískufatnaður.
EFTIRSÓTTAST Meðal þeirra vara sem mest er stolið af eru snyrtivörur og tískufatnaður.

Árleg rýrnun í verslunum hér á landi vegna þjófnaða og mistaka er um 2,8 milljarðar króna, að mati Rannsóknaseturs verslunarinnar, séu niðurstöður nýrrar erlendrar könnunar heimfærðar á íslenskar aðstæður. Er þá miðað við meðaltalstölur frá 24 Evrópulöndum. Mestu munar um gripdeildir viðskiptavina.

Stærstan hluta þessarar upphæðar má rekja til þjófnaða, eða um 2,4 milljarðar, annað er vegna mistaka í versluninni. Þessi tegund rýrnunar í verslunum er að meðaltali 1,24 prósent af veltu evrópskra smásöluverslana, samkvæmt niðurstöðum European Theft Barometer, sem gerir slíkar kannanir á hverju ári. Íslenskar verslanir voru ekki með í könnuninni að þessu sinni, en í fyrra, þegar þær tóku þátt, var Ísland rétt undir meðaltalinu.

Stærstur hluti rýrnunar er talinn vera vegna þjófnaða viðskiptavina eða 48,8 prósent. Næststærsti hlutinn er talinn vera vegna þjófnaða starfsmanna, eða 30,7 prósent. Ýmis mistök í fyrirtækjunum valda 14,3 prósentum rýrnunarinnar og 6,2 prósent eru vegna mistaka birgja. Ef þessar tölur eru heimfærðar upp á verslun hér á landi stela viðskiptavinir árlega fyrir 1,4 milljarða kr. og starfsmenn fyrir 553 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×