Innlent

Veittist að Árna Johnsen

Þjóðhátíðargestur veittist að Árna Johnsen í brekkusöngnum í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og hrifsaði af honum hljóðnemann.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum lauk að venju með brekkusöngi í stjórn Árna Johnsens. Brekkusöngurinn gekk þó ekki uppákomulaust fyrir sig. Einn Þjóðhátíðargestur hljóp inn á sviðið, stjakaði við Árna og hrifsaði til sín hljóðnemann. Fjöldi gæslumanna hljóp til og fjarlægði manninn áður en hann náði að syngja nema örfáa tóna. Árna Johnsen virtist ekki brugðið, því þegar hann kom að hljóðnemann aftur tók hann til við sönginn þar sem frá var horfið.

Skemmtanahald gærkvöldsins og næturinnar gekk vel fyrir sig að sögn lögreglu. Þar mátti þó engu muna að illa færi þegar gæslumenn skutu flugeldum á loft til að lýsa upp herjólfsdal. Vildi ekki betur til en svo að einn flugeldurinn fór af leið og hafnaði í einu tjaldanna sem í voru meðal annars þrjú börn. Gæslumenn voru fljótir á staðinn og komust allir úr tjaldinu, heilir á höldnu. Mikið rok var í dalnum í nótt en gæslan telur það ekki hafa haft áhrif heldur að flugeldurinn hafi verið gallaður. Að öðru leyti gekk allt vel fyrir sig, einn var tekinn með fíkniefni og gistir hann nú fanageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×