Viðskipti innlent

Bitist um Lundúnakauphöllina

Verðið á Kauphöllinni í Lundúnum hækkaði um 22 prósent í morgun í kjölfar vangaveltna um hvort Nasdaq og Kauphöllin í New York taki að bítast um kaup á kauphöllinni. Fréttavefur Breska ríkisútvarpsins greinir frá.

Um helgina sögðu breskir fjölmiðlar frá því að Kauphöllin í New York (NYSE) væri að hugleiða boð í Lundúnakauphöllina, en á föstudag hafnaði kauphöllin kauptilboði frá amerísku kauphöllinni Nasdaq upp á 2,43 milljarða punda og sagði verðmæti fyrirtækisins vanmetið í því.


Boðið sem var hafnað hljóðaði upp á 950 pens á hlut og veltu menn því fyrir sér hvort Nasdaq myndi hækka boðið í 10 pund á hvern hlut. Í morgun hækkaði hins vegar gengi bréfa í Lundúnakauphöllinni um 195,5 pens og stóð fyrir hádegi í rúmlega 10,75 pundum.

Þá segja sérfræðingar að Nasdaq gæti orðið af bitanum ef Kauphöllin í New York tekur slaginn, því hún er sú stærsta í heimi, og ólíkleg til að láta sér jafnvænan bita úr hendi sleppa og alls ekki til litla keppinautarins Nasdaq.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×