Innlent

Engin niðurstaða á fundi

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslyndra, var fyrstur á mælendaskrá þegar önnur umræða um vatnalagafrumvarpið var framhaldið á Alþingi í kvöld.
Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslyndra, var fyrstur á mælendaskrá þegar önnur umræða um vatnalagafrumvarpið var framhaldið á Alþingi í kvöld. MYND/Haraldur Jónasson

Forseti Alþingis átti í kvöld fund með þingflokksformönnum til að reyna að leita leiða til að leysa þann hnút sem umræður um vatnalög iðnaðarráðherra eru komnar í á Alþingi. Ekkert samkomulag náðist. Kvöldfundi um málið var því framhaldið og alls óvíst hvenær annarri umræðu um málið lýkur.

Við upphaf þingfundar í kvöld var rætt um fundarstjórn forseta og tók sú umræða um klukkustund. Sté þá hver þingmaður stjórnarandstöðu á fætur öðrum í ræðustól og spurði forseta hvenær ætla mætti að fundi lyki. Ekki fékkst skýrt svar við þeirri spurningu.

Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingar, spurði forseta hvort rétt væri að forseti Alþingis hefði átt fund með þingflokksformönnum í kvöld og hver niðurstaða þess fundar hefði orðið. Þriðji varaforseti staðfesti að sá fundur hefði verið haldinn en vissi ekki hver niðurstaða hans hefði orðið.

Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingar, sté þá í ræðustól og sagði ekki hafa tekist neitt samkomulag um framhaldið. Niðurstaðan væri því að halda áfram með mælendaskrá en á henni voru þá sautján þingmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×