Viðskipti innlent

Penninn kaupir hlut í Te og Kaffi

Penninn hefur keypt þriðjungshlut í fyrirtækinu Te og kaffi og mun framvegis annast dreifingu og þjónustu til fyrirtækja á vörum frá Te og kaffi. Fyrirhugað er að opna nýtt kaffihús í Austurstræti á næstunni.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að dreifing og þjónusta á te, kaffi og nauðsynjavörum fyrir kaffistofuna sé liður í fyrirtækjaþjónustu Pennans með skrifstofu-, rekstrar- og tölvuvörur ásamt hreinlætis og hreinsivörum.

Te og kaffi hefur dregið sig út úr dreifingu til fyrirtækja og hefur sömuleiðis selt veitingahús sem rekið var á þeirra vegum. Te og kaffi mun framvegis einbeita sér að framleiðslu og heildsöludreifingu á tei og kaffi, ásamt sölu og þjónustu á tilheyrandi tækjum til verslana og veitingahúsa.

Einar Snorri Magnússson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Pennans, segir kaupverð trúnaðarmál. Hann er ánægður með samvinnu Pennans við Te og kaffi og telur viðskiptavini Pennans fá betri þjónustu fyrir vikið. „Með aukinni kaffimenningu landans gerir starfsfólk og viðskiptavinir fyrirtækja einfaldlega þá kröfu að fá alvöru kaffi, en ekki skyndikaffi eða staðinn uppáhelling. Með vönduðu hráefni, réttum tækjum og umhirðu geta öll fyrirtæki tryggt starfsmönnum og viðskiptavinum framúrskarandi bolla, jafnvel úr sjálfvirkum kaffivélum," segir hann í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×