Innlent

Sýrlendingar mótmæla árásum Ísraelshers

Mikil reiði ríkir í Arabalöndum vegna árása Ísraelshers í Palestínu. Þúsundir manna mótmæltu í höfuðborg Sýrlands í dag til að sýna samstöðu með Palestínumönnum.

"Við hvetjum íbúa allra landa til að standa upp og mótmæla fyrir hönd Palestínu" kölluðu mótmælendur á götum Damaskus höfuðborgar Sýrlands. Fjöldinn veifaði sýrlenskum fánum og hélt á myndum af palestínskum börnum.

Að minnsta kosti 50 Palestínumenn hafa látið lífið síðan Ísraelsher hóf árásir á Gazaströndina til að ná ísraelskum hermanni úr haldi herskárra Paelstínumanna. Khaled Mashaal, leiðtogi Hamas-samtakanna sem er í útlegð í Sýrlandi, lýsti því yfir í morgun að ísraelski hermaðurinn verði ekki látinn laus nema Ísraelar láti palestínska fanga úr haldi. Olmert, forsætisráðherra Ísraels segir hinsvegar Mashaal vera hryðjuverkamann og að Ísraelar semji ekki við hryðjuverkamenn.

Mashaal, sem Ísraelar hafa hótað að drepa, kom opinberlega fram í fyrsta skipti í dag síðan árásirnar hófust og sagði palestínsku þjóðina aldrei hafa verið eins samheldna og nú. Hann sakaði Ísrael um að brjóta alþjóðleg lög og sagði þá vera hina raunverulegu hryðjuverkamenn. Árásirnar undanfarna daga séu merki um ein verstu hryðjuverk sem framin hafa verið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×