Innlent

Gylfi Arnbjörnsson dregur framboð sitt til baka

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, hefur ákveðið að draga til baka framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Gylfi sóttist eftir 3. til 4. sæti.

Í tilkynningu sem Gylfi sendi frá sér síðdegis segist hann hafa ákveðið að bjóða sig fram þar sem hann teldi að djúpstæð þekking á aðstæðum launafólks og atvinnulífsins, ásamt margra ára þátttöku í mótun kjarasamninga og þróun efnahagsmála, ætti bæði erindi inn í Samfylkinguna og á Alþingi. Sú skoðun hans hefði ekki breyst og segir Gylfi að hann hafi fundið fyrir miklum stuðningi.

Gylfi segir ennfremur að það sé ljóst að bekkur frambjóðenda í efstu sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík sé þröngt setinn mjög frambærilegu fólki, því verði baráttan mikil og líklegt að þeir sem mæti nýir til leiks þurfi að hafa mikið fyrir því að ná þeim árangri sem þeir stefni að.

Telur því Gylfi, eftir vandlega íhugun, að barátta við þessar aðstæður samræmist illa störfum hans og hlutverki sem framkvæmdastjóra og talsmanns ASÍ, ekki síst á þeim vikum og mánuðum sem nú fari í hönd. Hann hafði því ákveðið að draga framboð sitt til baka og þakkar þann stuðning sem hann hafi fundið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×