Innlent

FL selur öll bréf sín í Icelandair Group

Fljúga hvor sína leið Hannes Smárason og félagar hans í FL Group yfirgefa nú hluthafahóp Icelandair. Jón Karl Ólafsson forstjóri heldur fluginu áfram með nýja áhöfn í hluthafahópnum.
Fljúga hvor sína leið Hannes Smárason og félagar hans í FL Group yfirgefa nú hluthafahóp Icelandair. Jón Karl Ólafsson forstjóri heldur fluginu áfram með nýja áhöfn í hluthafahópnum.

FL Group hefur selt allt hlutafé sitt í Icelandair Group að lokinni áreiðanleikakönnun á Icelandair. Tveir þriðju hlutar hlutafjár voru seldir til fjárfesta, starfsfólks og stjórnenda fyrir milligöngu Glitnis.

Það sem eftir stendur verður selt til fagfjárfesta og almennings í hlutafjárútboði á næstunni í tengslum við skráningu Icelandair í Kauphöll Íslands. Tryggir Glitnir sölu á því hlutafé Icelandair sem enn er óráðstafað en áætlað er að skráning fari fram á næstunni.

Þrír fjárfestahópar kaupa helming hlutafjár í Icelandair en þeir eru: Langflug, Naust og Blue-Sky Transport. Fyrstnefnda félagið, sem er að mestu leyti í eigu Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, tekur um 32 prósenta hlut. Naust kaupir 11,1 prósent en fyrir því fara eigendur Bílanausts og Olíufélagsins þar sem stærsti hluthafinn er Benedikt Sveinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins og Sjóvá-Almennra. Blue-Sky Transport Holding eignast 7,4 prósenta hlut en það er að stærstum hluta í eigu Ómars Benediktssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Íslandsflugs.

Finnur Ingólfsson, starfandi stjórnarformaður VÍS, verður líklega næsti stjórnarformaður Icelandair Group, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Starfsmönnum og lykilstjórnendum Icelandair verður boðið að kaupa alls átta prósent hlutafjár en þar að auki hafa aðrir fjárfestar tryggt sér um átta prósent. Hannes Smárason, forstjóri FL Group, er afar sáttur við söluna sem hann segir að hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig. Þetta er rökrétt framhald fyrir okkur og við náðum þeim markmiðum sem við settum okkur um skráningu og sölu Icelandair. Við horfum til þess að styrkja okkur innan þeirra sviða sem við höfum verið að fjárfesta í. Áætlaður hagnaður FL af sölunni eru um 26 milljarðar króna miðað við bókfært virði Icelandair Group og eykst handbært fé fjárfestingafélagsins um 35 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×