Innlent

Afnema þyrfti bankaleynd

Sveinbjörn Högnason, viðskiptafræðingur
Sveinbjörn Högnason, viðskiptafræðingur

Hið mikla álag sem er á Tryggingastofnun ríkisins þessa dagana og greint var frá í Fréttablaðinu í síðustu viku, má rekja til leiðréttingar sem skjólstæðingar stofnunarinnar þurfa að gera á árlegum framreikningi tekjuáætlunar.

Sveinbjörn Högnason viðskiptafræðingur bendir á að TR geri ráð fyrir óbreyttum fjármagnstekjum einstaklinga frá árinu áður og einstaklingar þurfi að andmæla formlega til að halda bótum sínum. "Leggja þarf fram tekjuáætlun í október, síðan leiðrétta hana í janúar og loks skila skattskýrslu í mars," segir Sveinbjörn og telur að þetta kunni að vera ástæða þess að margir skili alls ekki tekjuáætlun til TR.

Karl Steinar Guðnason, forstjóri TR, kannast við þetta vandamál. Hann segir lagabreytingu þurfa til að einfalda kerfið. "Við höfum ekki upplýsingar um fjármagnstekjur og sjáum þær ekki fyrr en í skattframtalinu. Á hverju ári fáum við niðurstöður skattframtala um tekjur einstaklinga og keyrum það saman við okkar eigin upplýsingar. Misræmi leiðir síðan til aukningar eða minnkunar bóta. Þá þurfa skjólstæðingar að andmæla, telji þeir á sér brotið. Í fyrra voru 85 prósent allra andmæla sem okkur bárust frá einstaklingum sem höfðu haft fjármagnstekjur árið áður. Þetta getur verið gríðarlegt mál fyrir þá, en til að einfalda þetta ferli þyrfti að afnema bankaleynd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×