Innlent

Tveir lögreglumenn hljótavaranlega örorku ár hvert

Lögreglan
Lögreglan

Að meðaltali tveir lögreglumenn á ári hljóta varanlega örorku eftir að hafa slasast í starfi, að sögn Gylfa Thorlacius hæstaréttarlögmanns. Hann fer með stærstan hluta bótamála fyrir lögreglumenn, sem meiðst hafa í starfi, á hendur ríkissjóði.

Samkvæmt upplýsingum Gylfa voru uppgerð bótamál af þessu tagi á árabilinu 1999 til 2001 alls 25. Á árunum 2003 til 2004 voru málin samtals 22. Mál er ekki gert upp fyrr en ári eftir að atvikið á sér stað, því afleiðingarnar eru ekki komnar fram fyrr.

Í þessum tilvikum, þar sem um er að ræða uppgerð bótamál, hafa viðkomandi lögreglumönnum verið greiddar bætur úr ríkissjóði, á grundvelli ákvæða laga um lögreglumenn, sem segir að þeir eigi að fá bætur fyrir allt tjón sem þeir verði fyrir í starfi, segir Gylfi. Þarna er um að ræða minni háttar mál, kjaftshögg, glóðaraugu og annað álíka upp í varanlegan miska og örorku. Þess ber að geta að það koma ekki öll mál af þessum toga til mín. Lögreglumenn leita til fleiri lögmanna með þau. En mér virðast þetta vera að meðaltali tíu til tólf mál á ári, þar sem lögreglumenn fá fjárhagsbætur úr ríkissjóði vegna meiðsla sem þeir verða fyrir í starfi.

Mín tilfinning er sú, að það séu um það bil tvö mál á ári sem eru mjög alvarlegs eðlis vegna átaka sem lögreglumenn lenda í, segir Gylfi. Ég er nýbúinn að gera upp við ríkislögmann eitt slíkra mála vegna lögreglumanns sem lenti í alvarlegum átökum við handtöku á manni á síðasta ári. Lögreglumaðurinn hlaut í þeim tjón sem leiddi til örorku. Á borði mínu er mál annars lögreglumanns sem búið er að meta og þar eru afleiðingarnar einnig varanleg örorka.

Í þessu sambandi má rifja upp lauslega athugun sem forráðamenn Landssambands lögreglumanna gerðu á lífaldri látinna félagsmanna. Niðurstaðan var sú, að lögreglumenn lifa að meðaltali tæplega 67 ár, en hinn almenni borgari lifir í rúmlega 79 ár. Lögreglumenn geta nú, einir opinberra starfsmanna, tekið eftirlaun við 65 ára aldur án þess að 95 ára reglan svokallaða liggi þar til grundvallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×