Viðskipti innlent

Tap hjá Eyri Invest

Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest tapaði 926 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra skilaði félagið 4,1 milljarðs króna hagnaði. Í tilkynningu frá félaginu segir að niðursveifla á hlutabréfamörkuðum á fyrri hluta ársins hafi haft áhrif á afkomu félagins.

Viðsnúningur hefur orðið í rekstri Eyris Invest á seinni hluta árs og reiknar félagið með ágætum hagnaði frá ársbyrjun. Þá hafa félög sem Eyrir Invest á aðild að, vaxið á arðbæran hátt í samræmi við stefnu auk þess sem almennur viðsnúningur hefur orðið á fjármagnsmörkuðum.

Þá segir að fjárhagur félagsins sé traustur og eiginfjárhlutfall í lok fyrri árshelmings 2006 39 prósent. Allar eignir séu fjármagnaðar innan efnahagsreiknings og engar skuldbindingar vegna framvirkra hlutabréfasamninga séu utan hans.

Sé það stefna Eyris Invest að fjármagna eignarhluta í öðrum félögum til langs tíma en meðallíftími vaxtaberandi skulda er 4 ár með meginþunga endurgreiðslna 2009 og 2012.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Eyris Invest, að afkoma félagsins á fyrri helmingi ársins sé í takt við markaðsaðstæður. Fram kemur að Eyrir Invest ehf. telji framtíðarhorfur góðar. Undirliggjandi verðmæti eignarhluta félagsins sé traust og hefur reiknað tap af eignarhlutum í lok fyrra árshelmings gengið að fullu til baka. Hefur félagið sett sér markmið um 20 prósenta árlega meðalarðsemi fyrir árin 2006-2010 til samanburðar við yfir 60 prósenta arðsemi að meðaltali á árunum 2000-2005.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×