Sport

Eiður baunar á Sir Alex

Eiður Smári Guðjohnsen tekur upp hanskann fyrir knattspyrnustjórann sinn Jose Mourinho í viðtali við Sky Sports fréttavefinn í dag og segir stjóra sinn stórlega vanmetinn. Það ógrynni af peningum sem Chelsea hefur úr að moða í leikmannakaup hefur komið af stað þeim umræðum í Englandi að nánast hvaða knattspyrnustjóri sem er gæti gert Chelsea að meisturum.

Það segir Eiður að sé hið mesta bull og pundar meðal annars á Alex Ferguson, stjóra Man Utd, sem einnig hefur spreðað ófáum milljónum en ekki í réttu leikmennina.

"Það er svo auðvelt að eyða peningum en ekki eins auðvelt að eyða þeim í réttu leikmennina. Reak Madrid hefur keypt bestu framherjanna undanfarin ár en eru ekki að vinna nein verðlaun. Manchester United hefur einnig eytt miklum pening, meðal annars 30 milljónum punda í einn leikmann, Rio Ferdinand, sjáið bara hvað er að verða um þá." segir Eiður og fer ekki í grafgötur með skoðun sína á því hver sé besti knattspyrnustjórinn.

"Maður verður hafa getuna til að púsla þessu öllu saman og láta leikmenn spila sem liðsheild. Það er það sem Mourinho hefur gert. Í gegnum hans þekkingu færir hann hverjum leikmanni sjálfstraust og liðinu öllu." bætir Eiður við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×