Viðskipti innlent

Enn líf á íbúðamarkaði

Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.
Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðaverð hækkaði um 2,4 prósent á milli júlí og ágúst á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt vísitölu sem Fasteignamat ríkisins birti í gær. Mælingin gefur til kynna að enn sé líf að finna á íbúðamarkaði og bið sé í verðlækkun, að mati greiningardeildar Glitnis.

Deildin segir veltu á íbúðamarkaði hafa aukist aðeins á ný síðustu vikurnar eftir að sumarleyfum lauk og hafi það dregið úr svartsýni manna í efnahagsmálum. Misvísandi merki berist hins vegar af íbúðamarkaðinum þessa dagana.

Íbúðaverð hafi til dæmis lækkað um 1,7 prósent á milli júní og júlí og velta snarminnkað síðustu mánuðina. Hugsanlegt sé að ólík verðþróun eigi sér stað í mismunandi stærðarflokkum íbúða um þessar mundir sem geti skekkt útreikninga að einhverju leyti í ljósi óverulegrar veltu, að mati deildarinnar. Rétt sé því að lesa ekki of mikið í verðbreytingar yfir einstaka mánuði á íbúðamarkaði en á síðustu 12 mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 10,8 prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Greiningardeildin telur ennfremur að þrýstingur verði til verðlækkunar íbúða á næstu misserum. Vextir á nýjum íbúðalánum hafa hækkað og aðgangur fólks að fjármagni hafi minnkað. Þá ógni verðbólguskotiðalmennum kaupmætti og hafi það dregið úr tiltrú neytenda. Stuðli þessir þættir að minnkandi eftirspurn á íbúðamarkaði miðað við núverandi verð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×