Innlent

Biðlistar heyri sögunni til

BARNA- OG UNGLINGAGEÐDEILD
108 börn bíða eftir sínu fyrsta viðtali á BUGL en með stækkun deildarinnar er vonast til að biðlistar verði úr sögunni.
BARNA- OG UNGLINGAGEÐDEILD 108 börn bíða eftir sínu fyrsta viðtali á BUGL en með stækkun deildarinnar er vonast til að biðlistar verði úr sögunni.

Á næsta ári verður ráðist í stækkun barna- og unglingageðdeildar. Þá færast greiningar á vægari tilfellum geðrænna vandamála til heilsugæslustöðva. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra vonar að með þessum aðgerðum heyri biðlistar brátt sögunni til. Áætlaður kostnaður stækkunarinnar er um 340 milljónir. Þess má geta að nú bíða 108 börn og unglingar eftir fyrsta viðtali á BUGL og hafa sumir beðið í á annað ár.

Til að létta enn frekar á biðlistum á BUGL hefur verið ákveðið að greining vægari geðrænna vandamála barna og unglinga flytjist til heilsugæslustöðva. Þetta mun leiða til þess að göngudeild BUGL eflist og aðstæður skapast til að sinna veikustu börnunum betur.

Þá verður geðheilbrigðisþjónusta við heilsugæslu á landsbyggðinni efld og reglubundnar heimsóknir fagaðila tryggðar á Ísafirði, við Heilbrigðisstofnun Austurlands og á Suðausturlandi.

Siv segir að samanlagður kostnaður við stækkun BUGL og færsla vægari vandamála til Heilsugæslunnar sé áætlaður um 400 milljónir króna. „Þessar framkvæmdir eru veruleg ígjöf í málaflokkinn og mikilvægt að byggingaframkvæmdir hefjist eins fljótt og unnt er, og ekki síðar en á næsta ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×