Sport

Gangi þér vel með Mourinho

William Gallas er ekki sérlega hrifinn af Jose Mourinho
William Gallas er ekki sérlega hrifinn af Jose Mourinho NordicPhotos/GettyImages

Franski varnarmaðurinn William Gallas segist í samtali við The People vera mjög ánægður með að vera genginn í raðir Arsenal og óskar enska landsliðsmanninum Ashley Cole um leið góðs gengis í að eiga við fyrrum knattspyrnustjóra sinn Jose Mourinho.

"Ég vildi fara frá Chelsea og Arsenal var félag sem hentaði mér mjög vel. Ég er líka ánægður í London og á marga vini hérna. Ég er ánægður með að vera kominn í herbúðir Arsenal, því ég er ekki í nokkrum vafa með að hérna verður farið betur með mig en Jose Mourinho fór með mig hjá Chelsea á síðasta ári. Ég óska Ashley Cole góðs gengis og vona að hann þoli Mourinho.

Hann er góður knattspyrnustjóri, en hann er mjög erfiður í umgengni við leikmenn sína. Sjáið bara hvað kom fyrir mig. Það er það nákvæmlega sama og kom fyrir þá Ricardo Carvalho, Mateja Kezman, Paulo Ferreira, Asier Del Horno og Hernan Crespo áður. Mourinho notar okkur eins og honum sýnist.

Ég sýndi Chelsea alltaf hollustu þó tilboðunum rigndi inn frá Evrópu, en þetta taldi ekki hjá Mourinho, sem hefur jagast sífellt í mér eins og hann vildi koma stuðningsmönnum okkar og fjölmiðlum upp á móti mér. Ég skil þetta ekki. Félagar mínir studdu alltaf við bakið á mér hjá Chelsea, en enginn þeirra þorði að segja neitt í blöðunum, því Mourinho er alráður hjá Chelsea.

Það var frábært að vera hjá Chelsea þennan tíma af því liðinu gekk mjög vel, en undir lokin fannst mér eins og ég væri farinn að fara í taugarnar á Mourinho og ég hef ekki hugmynd um af hverju," sagði Gallas.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×