Innlent

Þyrlu ekki lent aftur á Kolbeinsey

Þessi mynd var tekin árið 2004 þegar þyrlupallurinn var sýnu heilli en nú.
Þessi mynd var tekin árið 2004 þegar þyrlupallurinn var sýnu heilli en nú. Jón Páll Ásgeirsson

Þyrlu verður ekki aftur lent á Kolbeinsey eftir að í ljós kom í gær að liðlega þriðjungur pallsins hefur hrunið einhvern tíma á síðustu tveimur mánuðum. Það styttist því í að þessi fyrrverandi útvörður landsins í norðri hverfi alveg í sæ.

Áhöfn Synjar, eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, fór í venjubundið eftirlitsflug í gær þar sem flogið var úti fyrir Norðurlandi. Myndir af Kolbeinsey sýna að um helmingur þyrlupallsins hefur hrunið, en hann var steyptur var árið 1989 til að styrkja eyna. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær þetta gerðist en á myndum frá í byrjun janúar sést að pallurinn er ólaskaður þá.

Stöðugt brotnar af þessum útverði Íslands í norðri og segja landhelgisgæslumenn aðeins tímaspursmál hvenær eyjan hverfur endanlega í sæ. Kolbeinsey var lengi vel mikilvæg vegna skilgreiningar á efnahagslögsögu landsins en í lok síðustu aldar samið við Dani um skiptingu hafsvæðisins norðan við eyna.

Inni í þeim samningi er ákvæði um að þótt Kolbeinsey hverfi í sæ stendur skipting hafsvæðisins eftir sem áður. Ísland ræður yfir 30% af hinu umdeilda svæði og Grænland fyrir hönd Danmerkur yfir 70%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×