Viðskipti innlent

Tekjuafgangur Akureyrarbæjar 360 milljónir

Mynd/Vísir

Heildarniðurstaða ársreikninga Akureyrarbæjar fyrir síðasta ár, sem lagðir voru fram í bæjarráði Akureyrar í dag, er mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Fjárhagurinn er traustur og er rekstrarniðurstaða samstæðunnar jákvæð um ríflega 360 milljónir króna. Áætlun hafði gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði.

Veltufé frá rekstri nemur tæpum 1,7 milljörðum og eignir sveitarfélagsins eru

bókfærðar á rúma 22 milljarða króna.

Í ársreikningum Akureyrarbæjar kemur fram að reksturinn hafi gengið afar vel á síðasta ári. Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 1,67 milljarða króna og var handbært frá rekstri 1,66 milljarðar króna. Þá námu fjárfestingarhreyfingar samtals tæplega 2,18 milljörðum króna.

Þá nam afborgun langtímalána 587,1 milljón króna en ný langtímalán námu 1.393,3 milljónum króna. Hækkun á handbæru fé á árinu nam 13,2 millj. kr. og nam handbært fé sveitarfélagsins í árslok 1.502 milljónum króna.

Í ársreikningunum kemur jafnframt fram að stöðugildi hjá Akureyrarbæ hafi verið 1.456 talsins og sé það 36 stöðugildum meira en árið á undan. Námu heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda bæjarins 4.394.268 þúsundum króna, að því er segir í ársreikningum Akureyrarbæjar. Þá námu skatttekjur sveitarfélagsins 290.000 krónum á hvern íbúa en tekjur voru samtals 608.000 krónur á hvern íbúa. Til samanburðar voru skatttekjur Akureyrarbæjar 260.000 krónur á hvern íbúa árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×