Viðskipti innlent

Minni innflutningur í febrúar

Vöruinnflutningur nam 22 milljörðum króna hér á landi í febrúar en það er 3,5 milljörðum krónum minna en í janúar. Um bráðabirgðatölur er að ræða, að því er fram kemur í vefriti fjármálaráðuneytisins. Ef tölurnar reynast réttar hefur staðvirtur vöruinnflutningur aukist um 23 prósent á síðustu 12 mánuðum en um 32 prósent ef horft er til 12 mánaða breytingar ársmeðaltals.

Á meðal þeirra vöruflokka sem minna var flutt inn í febrúar var eldsneyti, en innflutningur á því sveiflast mikið á milli mánaða. Þá er sömuleiðis minna flutt inn af fjárfestingarvörum og hrá- og rekstrarvörum. Þá var nokkur aukning á innflutningi neysluvarnings í síðasta mánuði auk þess sem bílainnflutningur hefur tekið kipp.

„Í ljósi gengislækkana síðustu vikna má þó gera ráð fyrir að eitthvað fari að slá á mikinn bílainnflutning á næstunni," að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×