Innlent

Ríkisstörfum hefur fækkað í sumum skattumdæmum

Störfum á vegum ríkisins hefur fækkað töluvert í sumum skattumdæmum á síðustu átta árum sem er þvert á áætlanir ríkisstjórnarinnar. Á þetta benti þingmaður Frjálslynda flokksins í umræðum á Alþingi í dag og vildi draga Valgerði Sverrisdóttur ráðherra byggðamála til ábyrgðar. Hún sagði hins vegar málið ekki á sinni könnu.

Sigurjón Þórðarson kvaddi sér hljóðs í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og vakti athygli á því að allt frá árinu 1994 hefðu stjórnvöld haft það að markmiði að flytja fleiri ríkisstörf út á land en draga þau saman á höfuðborgarsvæðinu. Engar mælingar hefðu verið gerðar á því hversu vel gengi að ná markmiðunum og því hefði hann sjálfur spurt fjármálaráðherra um þróun á fjölda ríkisstarfsmanna eftir skattumdæmum.

Í svari Árna Mathiesen kemur fram að frá árinu 1997, eftir að grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga, og til ársins 2005 hefur ríkisstarfsmönnum fjölgað um 2.860 á landinu öllu. Þeim hefði þó fækkað á Reykjanesi, Austurlandi, Norðurlandi vestra og Suðurlandi en í Reykjavík hefði þeim hins vegar fjölgað um 2956.

Sigurjón benti á að þetta gengi þvert á yfirlýsingar stjórnvalda um að verið væri að fjölga ríkisstarfsmönnum úti á landi.

Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra byggðamála, sté í pontu og sagði að málið heyrði ekki undir hana, í byggðaáætluin færi hún ekki með þennan málaflokk sem varðaði opinber störf. Þá sagði Valgerður það mikinn ábyrgðarhlut hjá þingmönnum að taka allt niður og henni þótti Sigjóni einn af þeim. Þetta væri ekki það sem fólkið á landsbyggðinni vildi heyra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×