Innlent

Fær ekki aðstoð barnaverndaryfirvalda

Móðir af erlendum uppruna fær ekki aðstoð barnaverndaryfirvalda á Álftanesi til að sækja barn sitt til forsjárlauss föður sem hefur haldið barninu í leyfisleysi frá því í ágúst.

Drengurinn, sem er seinþroska og á við talörðugleika að etja, átti að hefja skólagöngu í lok ágúst. Barnaverndaryfirvöld á Álftanesi segja málið einkamál foreldranna. Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður konunnar segist steinhissa á viðbrögðum barnaverndaryfirvalda nú enda sé það eitt að barnið mæti ekki í skólann næg ástæða til að skerast í leikinn. Auk þess hafi móðirin ríka ástæðu til að óttast um aðbúnað barnsins.

Lögin gera ráð fyrir því að það foreldri sem fer með forsjá fari sjálft fram á úrskurð dómara til að sækja barnið og það megi síðan gera með atbeina lögreglu og barnaverndaryfirvalda.

Misjafnt er hversu langan tíma tekur að fá dómsúrskurð en í þessu máli hefur ekki tekist að birta manninum stefnu þar sem hann fer huldu höfði. Þorbjörg Inga segir að þrátt fyrir að lögin séu gölluð að þessu leyti geti barnaverndaryfirvöld ekki skotið sér undan ábyrgð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×