Innlent

Myndsímar fyrir heyrnarlausa prófaðir

Samningur um fjarskiptaþjónustu. Kristján Hafsteinsson, viðskiptastjóri Símans, Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, og Jón Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra.
Samningur um fjarskiptaþjónustu. Kristján Hafsteinsson, viðskiptastjóri Símans, Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, og Jón Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra.

Nú er verið að prófa myndsíma sem gerir heyrnarlausum kleift að tala táknmál sín á milli. Félag heyrnarlausra hefur tekið þátt í því að tveir símar þessarar gerðar hafa verið fluttir til landsins. Þetta var meðal þess sem fram kom á málþingi um samskiptatækni heyrnarlausa sem fram fór nú fyrir helgi.

Guðrún Gísladóttir, framkvæmdastjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, var ein þeirra sem héldu erindi á málþinginu og fjallaði um hlutdeild ríkisins í kostnaði vegna hjálpar- og samskiptatækja fyrir heyrnarlausa. Nú hefur heilbrigðisráðherra heimilað að heyrnarlausir fái styrk fyrir samskiptatækjum eins og tölvu, farsíma, faxtæki eða myndsíma að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Þá hafa Síminn og Félag heyrnarlausra skrifað undir samstarfssamning um heildarfjarskiptaþjónustu. Síminn mun setja upp myndsíma hjá Félagi heyrnarlausra og er kennsla og aðstoð við búnaðinn innifalin í samningunum.

Jón Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, segir mun fljótlegra og þægilegra fyrir heyrnarlausa að nota myndsíma en skrifuð skilaboð, sem taki umtalvert lengri tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×