Innlent

Jafnt hlutfall í efstu sætunum

Bryndís Bjarnarson segir mikilvægt að auka hlut kvenna á Alþingi, reynslan sýni að konur séu oftast neðar á listum en karlar. Því leggi framsóknarkonur áherslu á jafnt kynjahlutfall í fjórum efstu sætunum á framboðslistum flokksins.
Bryndís Bjarnarson segir mikilvægt að auka hlut kvenna á Alþingi, reynslan sýni að konur séu oftast neðar á listum en karlar. Því leggi framsóknarkonur áherslu á jafnt kynjahlutfall í fjórum efstu sætunum á framboðslistum flokksins.

Landssamband framsóknarkvenna leggur áherslu á að kynjahlutfall sé jafnt í fjórum efstu sætum framboðslista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Fjögur efstu sætin hafi mest um það að segja hverjir fái sæti á Alþingi og mikilvægt sé að rétta hlut kvenna á Alþingi. Þannig geti konur haft áhrif á áframhaldandi mótun samfélagsins. Þetta kemur fram í ályktun frá sambandinu.

„Við viljum jafnt kynjahlutfall í fjórum efstu sætunum vegna þess að reynslan sýnir að konur eru oftast neðar á listum og færri í efstu sætunum en karlar,“ segir Bryndís Bjarnarson, formaður sambandsins.

„Það mætti túlka síðustu alþingis­kosningar þannig að konum hafi fækkað þar því það voru færri konur í fjórum efstu sætunum heldur en karlar. Við teljum mikilvægt að auka hlut kvenna með þessu.“

Hún segist þó ekki telja konur eiga undir högg að sækja í Framsóknarflokknum. „Það er alls ekki raunin. Samt sem áður þurfum við að vera vakandi yfir hlut kvenna. Við viljum með þessu vekja konur til umhugsunar og hvetja þær til þess að gefa kost á sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×