Innlent

Lífsstíll fyrir karla og konur

Nýtt tímarit, Tímaritið H, er að hefja göngu sína og kemur fyrsta tölublaðið út í nóvember. Ritstjóri er Steingerður Steinarsdóttir, fyrrverandi blaðamaður hjá Fróða, og hefur hún þegar tekið til starfa.

Tímaritið H verður ókeypis lífsstílsblað fyrir karla og konur. Steingerður segir að fjallað verði um lífsstíl frá öllum hliðum og allt sem þyki áhugavert. Í blaðinu verði viðtöl, greinar og umfjöllun um allt milli himins og jarðar, líka vöru og þjónustu. Á blaðinu verði tvær forsíður og engin baksíða.

Við erum tilbúin að fjalla um nánast allt sem gerir lífið skemmtilegt, segir hún. Boðið verður upp á svokallaða frískrift. Við stefnum að því að þetta blað verði frítt og ætlum að láta auglýsingakostnað borga útgáfuna en gefum jafnframt fólki kost á að skrá sig og fá það sent og borga þá eingöngu póstburðargjaldið, segir Steingerður.

Fyrsta tölublaðið verður 100 síður að stærð og verður upplagið 25 þúsund eintök til að byrja með. Útgáfufélagið Ásberg stendur að blaðinu en það eiga þau Stefán Þórisson, fyrrverandi hóteleigandi, og kona hans, Eva Auðunsdóttir snyrtifræðingur. Auður Auðuns­dóttir er framkvæmdastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×