Innlent

Óbreytt staða í efstu sætum

Kristján L. Möller hlýðir á fyrstu tölur Kristján sigraði með yfirburðum í prófkjörinu.
Kristján L. Möller hlýðir á fyrstu tölur Kristján sigraði með yfirburðum í prófkjörinu. MYND/Örlygur

Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson og Lára Stefánsdóttir verða áfram í þremur efstu sætum Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Prófkjör Samfylkingarinnar í kjördæminu fór fram í gær en 1.878 tóku þátt í prófkjörinu, tæplega 70 prósent af 2.834 sem voru á kjörskrá.

Kristján, Einar og Lára voru einnig í þremur efstu sætum á lista flokksins í kjördæminu fyrir kosningarnar 2003.

Kristján L. Möller alþingismaður fékk afgerandi kosningu í efsta sætið, eða 1.295 atkvæði. Hann segir spennandi tíma vera fram undan á kosningavetri. „Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk og tel prófkjörið hafa heppnast vel. Sjötíu prósent þátttaka er góð niðurstaða fyrir flokkinn. Flokksfólk í Samfylkingunni dæmir okkur af verkum og þetta er niðurstaðan. Við ætlum okkur að ná inn þriðja alþingismanninum í kosningunum næsta vor og ég tel listann vera líklegan til þess að ná góðum árangri.“

Kristján segir mörg mikilvæg verkefni bíða úrlausnar í kjördæminu og hlakkar til þess að takast á við þau. „Það þarf að huga að skólamálum í kjördæminu, bæði á háskóla- og framhaldsskólastiginu. En fyrst og fremst eru það landsbyggðarmál í víðu samhengi sem þarf að berjast fyrir, sem öðru fremur snúast um jafnrétti, jafnræði og jöfnuð.“

Ragnheiður Jónsdóttir varð í 4. sæti, Örlygur Hnefill Jónsson í 5. sæti, Jónína R. Guðmundsdóttir í 6. sæti, Benedikt Sigurðsson í 7. sæti, Sveinn Arason í 8. sæti og Kristján Ægir Vilhjálmsson í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×